þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Los Gatos og umhverfið.


Los Gatos er bærinn þar sem hótelið mitt er. Það má með sanni segja að þetta sé bær ríka fólksins, allavega svona frekar ríka fólksins. Hérna við hliðina á hótelinu er starfrækt bílasala sem selur enga bíla ódýrari en ca 300.000 dollara. Þarna eru bara Ferrari , Aston Martin , Rolls Roys, Bentley og Bugatti. Eins og sjá má af söluskrá þeirra eru margir frekar flottir vagnar þarna á ferð. Veðrið hérna hefur verið frekar þægilegt, ekkert alltof heitt og jafnvel frekar svallt á nóttunni. Margir segja að Október og Nóvember séu hlýjustu mánuðurnir í San Fransisco því það er ekki eins oft þoka á morgnanna eins og hina mánuðina.
En hitastigið er allaveg þannig að maður fer ekki oft í peysu, jú kanski á kvöldin, og er frekar létt klæddur.

En nóg um að . Bókarskrifin eru það sem allt snýst um hjá mér núna. Það er farið að líða á seinni hlutann af þessari ferð og við verðum að skila af okkur 12 köflum núna á föstudaginn og hananú. Við verðum sem sé mjög uppteknir í þessari viku, enn allt er þetta nú samt á áætlun ennþá. Það var ákveðið að við færum ekki út að borða á hverju kvöldi þessa vikuna eins og við höfum gert hinar 4, sem verður að teljast til tíðinda.. en einhver sagði að það væru 74 resturantar í göngufæri við hótelið okkar.
jæja ég ætla að hætta að finna mér eitthvað annað að gera og halda áfram að skrifa...
Kveðja
Beck's

föstudagur, 2. nóvember 2007

Það er allt stórt í Ameríku


Heilir og sælir lesendur góðir.
Þessi dagur byrjaði nú bara allveg ágætlega. Ég var kominn snemma á fætur og byrjaður að vinna og allveg kominn í gírinn, þegar síminn hringdi. Þetta var félagi minn hjá Brocade sem var bara að athuga hvort ég væri ekki til í að eyða deginum með honum þar sem hann var hvort eð er með tvo IBM-ara með sér og þeir ætluðu að keyra til Big Basin State Park og skoða rauðviðstré af stærstu gerð.. Ég hugsaði mig um í svona quart microsekundu og sagði auðvitað væri ég til í svona vitleysu. Seinna kom svo í ljós að IBM-ararnir eru fra IBM Nordic og ég þekki þá báða mjög vel. Þannig að dagurinn hjá mér fór í tóma vitleysu og nú þarf ég að vera að vinna á laugar eða sunnudaginn til að vinna upp tapið í dag. En engu að síður þá fékk ég út að borða í staðinn með strákunum á Benihanas sem var einstök upplifun í sjálfu sér . Eftir matinn hélt ég mína leið heim á hótelið og var fljótur að hoppa í náttbuxurnar , hella mér rauðvín í glas og hafa það náðugt.














Ég fór reyndar að hugsa um það á leiðinni heim áðan , að þegar maður er með hugann einhverstaðar annarstaðar td hjá þeim sem maður elskar þá eitthvern veginn hlustar maður öðruvísi á tónlist.. hafið þið tekið eftir þessu ? Maður setur alla texa á eitthvern hátt í samnhengi við sitt eigið líf....hmmm furðulegt fyrirbæri. Enn kannski útskýrir textinn þetta bara best:
Missing someone gets easier every day because even though it's one day further from the last time you saw each other, it's one day closer to the next time you will.

Kær kveðja
Beck's

miðvikudagur, 31. október 2007

Jarðskjálftar í San Fransisco


Jæja gott fólk , það er gott að vera frá Íslandi og vera vanur jarðskjálftum. Það var um kvöldmatarleytið í gærkvöldi að ég fór með félögum mínum á veitingastað hérna í nágreninu. Þegar við vorum að panta aðalréttinn þá reið jarðskjálfti yfir sem mældist 5,6 á Richter s.s. þokkalega öflugur. Eitt glas á borðinu okkar valt um koll og það sló þögn á alla á staðnum. Skrýtni þjóðverjinn sem var með okkur hélt að þetta væri hluti af halloween, og það voru greinilega fleiri sem héldu það því margir klöppuðu þegar þetta var yfirstaðið. Ég var nú hálf smeikur að sitja inn í amerísku húsi sem er byggt úr tannstönglum, en þetta reddaðist nú allt. Ég las svo í blaðinu i dag að þetta er stærsti jarðskjálfti á þessum slóðum síðan 1989. Svo þegar ég var að vinna í dag á skrifstofu IBM í San Jose þá kom annar skjálfti mun minni en þessi í gær. Ég hef ekkert séð hvað hann var stór á Richter skalanum.

En nóg um jarðskjálfta.. í dag er halloween í ameríku og þeir eru í einu orði sagt ruglaðir. Ég skil vel að krökkum finnst gaman að klæða sig upp og fá nammi fyrir að vera í fínum og flottum búningum. En ég labbaði um hverfið hérna í Los Gatos, þar sem hótelið er, og þarna voru strákar og stelpu ca 15-16 ára í búningum að labba meðal 3-8 ára að sníkja nammi, ótrúlegt. En þetta er svona carnival stemming , búið að skreyta mikið af húsum og jafnvel loka götum fyrir bílaumferð þar sem mikið af fólki er að labba um og skoða skreytingar hjá öðrum, það var rosalega gaman.
Jæja segjum það gott í bili.,

halloween kveðja
Beck´s

sunnudagur, 28. október 2007

Columbia


Já ég veit hvað þið eruð að hugsa .. en það er ekki það.. heldur er það lítill bær rétt utan við Yosemite nation park hérna í Californiu.

Ég var vakinn í morgun með símtali frá skrýtna þjóðverjanum sem er að skrifa með mér bókin og hann spurði hvort ég hefði planað daginn,, og þar sem ég var nývaknaður þá var vitanalega svarið nei.. hann sagði mér þá að hitta sig á bílastæðinu við hótelið eftir 20 mín.. jæja þá ég staulaðist á fætur og kom mér í föt og skellti í mig morgunmat. Á bílastæðinu beið mín þjóðverjinn og vinur hans, þessi með flugprófið, og brostu hringinn að ég ætlaði að koma með.. Förinni var heitið að Yosemite þjóðgarðinum og fljúga þaðan til Columbíu.. hmmm er það ekki hættulegt í svona smá rellu varð mér að orði.. enn þá komst ég að því að það er bær sem tengist gullæði Californíu sem ber heitið Columbia. Við flugum sem sagt að Yosemite park , við gátum ekki flogið yfir hann þar sem hann liggur mjög hátt yfir sjávarmáli og það eru einhver lög um að það verður að fljúga 2000 fet yfir garðinum og þar sem við vorum komnir i 11000 fet þá réð Cessnan okkar ekki við meir .. annars hefðum við geta flogið yfir hann..
Enn engu að síður þá lentum við í Columbia og sáum hvernig Californíu búar unnu sitt gull. Við drukkum okkar öl á Saloon sem var byggt um 1850, allar byggingarnar í þessum litla bæ eru upprunanlegar og bærinn er mikið notaður sem kvikmyndasett. Þegar við loksins stauluðumst upp í Cessnuna okkar og héldum heim þá sáum við hvar skógareldar geysuðu og vorum reknir í snarhasti í burtu þar sem björgunar-þyrlur og flugvélar voru að gusa vatni á eldana. Þegar við nálguðumst San Fransisco þá flugum við meðal annars yfir tvö þekktustu fangelsi í Bandaríkjunum þ.e San Quentin og Alcatraz . En San Quentin er rétt norðan við SF. Eftir að hafa skoðað Alcatraz úr lofti þá flugum við yfir Golden Gate brúnna og þaðan flugum við suður yfir ströndina í átt að San Jose, en litli flugvöllurinn okkar er við bæ sem heitir Gilroy og hýsir meðan annars risa outlet , sjá hér, sem sagt staður til að skoða nánar.... Þannig að þetta var bara fínn dagur með þýsku ferðafélögunum.
jæja .. kveð í bili , auf widersehen

Beck's

fimmtudagur, 25. október 2007

SAN FRANSISCO


Jæja jæja hlustendur góðir.. haldiði ekki að strákurinn hafi munað lykilorðið inn á blogg síðuna sína.... en það er víst ekki eina ástæðan fyrir því að ég hef ekki skrifað staf síðan í Apríl.. Ég var reyndar rosalega þreyttur eftir skógarhöggið .. enn kannski ekki allveg svona. Það er runnið mikið vatn til sjávar síðan því núna er ég staddur í San Fransisco að skrifa bók. jú þið lásuð rétt . skrifa bók. Já ég gafst upp á þessum veraldlegu gæðum og gerðist hippi og sit nú með blóm í hárinu og skrifa bók. nei þetta var nú ekki allveg svona .. enn ég er nú samt að skrifa bók .. bók fyrir IBM svo kallaða IBM REDBOOK.
Ég kom hingað til SF þann 6.okt og verð til 17.nóv þannig að ég er svona ca hálfnaður með tímann minn hérna.
Það gengur ágætlega að skrifa bókina en mikill tími fer í rannsóknir og pælingar og spælingar. Kemur mér reyndar mikið á óvart hvað fyrri bækur um þessa græju eru vitlausar þegar maður loksins fær tækifæri til að skoða aðeins magainnihald græjunnar, en hvað um það.

Ég gær fór ég með tveimur þjóðverjum í flugferð um the bay area í cessnu rellu.. sem var reynar allveg splúnku ný. það var rosalega gaman að sjá hvernig silicon valley er byggður upp og ég tala nú ekki um sólsetrið við Kyrrahafið.
En hvað um það .. ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra í bili en vonandi verð ég duglegri að skrifa fáeinar línur hérna en ég hef verið.
kveðja

Beck´s

sunnudagur, 15. apríl 2007

Lurkum laminn !!!!

Já ég er búinn að komast að því hvað er að vera lurkum laminn í bókstaflegri merkingu !!
Við byrjuðum nefnilega á því að rífa niður tré í garðinum okkar og eins og áður fór maður helst til of geyst af stað og er með harðsperrur dauðans um allan kropp.
Víðir félagi kom og hjálpaði mér og eins og sönnum skógarhöggsmönnum urðum við að taka sitthvort tréð niður með exi, en ekki vélsög eins og öll hin.. jesus kristur, það var ekkert smá erfitt. Ég var næstum dauður eftir átkökin og ekki bætti úr skák þegar Víðir var að koma með comment eins og "þú ert að verða kominn í gegnum börkinn"-"viltu meiri bjór". Ég er búin að sanfærast um að skógarhögg er mikill tækni og þvílík hreystimenni sem vinna við það, það er ef þeir fella meir en eitt tré á dag.
Enn allt hafðist þetta nú á endanum. þ.e að koma þessu niður og inn í garð ..Nú tekur við helmingi meiri vinna að losna við þetta allt saman.. ég er búinn að hamast eins og brjálaður maður að búta þetta niður og koma þessu í flytjanlegar stærðir. En an að öllum líkindum panta ég bara vörubíl með krabba og fæ hann til að hirða þetta allt saman.

Ég og Inga tókum nú smá forskot á sæluna og rifum niður alla runna sem voru í beðinu sem liggur að skúr nágranans og ég leigði svona tætara (kompostkværn) til að hakka niður greinarnar, og það tók ekkert smá langan tíma en eins og allt þá hafðist það áður en ég átti að skila græjunni. Inga ætlar nefnilega að koma sér upp mini matjurtargarði.

Það er búið að vera rosalega gott veður hjá okkur um og yfir 20 stiga hiti og sól, þannig að karkkarnir eru vel útitekin og manni finnst vera komið þvílíkt sumar, en ég held samt í mér,, það er nú bara apríl ennþá.

Inga og Eiríkur hafa því miður ekki getað notið sumarblíðunar sem skildi þar sem þau bæði eru full af kvefi og hálsbólgu. En þau eru nú öll að koma til .. Eiríkur er svvvvooooo nálægt því að byrja að skríða að maður tekur myndir af honum á 20 sek fresti, ( ég sé það núna maður er nett klikkaður)

Enn svona er skógarhöggs lífið

kveðja
Beck's
Posted by Picasa

þriðjudagur, 10. apríl 2007

Grænir fingur og súkklaði á nebba



Jæja nú er maður búin að endurheimta fjölskylduna frá Íslandi og er maður búin að vera í sjöunda himni síðast liðna viku.

Erna Sif var nú aldeilis glöð núna um páskana, ein vinkona hennar frá Íslandi kom í heimsókn og gátu þær leikið sér saman heilan dag. Foreldrar hennar og systkyn komu einnig og borðuðu hjá okkur svina steik með alles á páskadag. Egill var nú orðin frekar þreyttur þarna um kvöldið enda hafði hann vaknað fyrir kl 6 til að fara að leita að páskaeggi.. en pabbi hans reyndi nú að koma fyrir hann vitinu og sagði að það væri nú enn nótt.. en þá kom þetta sígilda, " en það er bjart úti" og hvernig á maður að útskýra það fyrir barni sem ekki enn kann á klukku !! En eitthvað tókst mér að teigja lopann svo að við byrjuðum ekki að leita fyrr en kl 7. Mikið rosalega var gott að fá páskaegg frá Íslandi.. en hvað er þetta með súkkulaði ? maður er að innbyrða fleiri hundruð grömm af súkkulaði á x klst. það er sko ekki skrýtið að krakkar verði klikkaðir um páska. Erna og Egill fóru nú svo pent í þetta að þau eiga bæði meir en helming eftir af sínu eggi þó nú sé komin 3. í páskum, en samt fékk Erna í magan og hausverk.

Annan í páskum þá fengum við Sólrödar gengið í heimsókn og ég grillaði íslenskt lamba fille... naaammmmiii.. það var hrikalega gott, vá hvað ísl. lambakjöt getur verið gott.. Allir borðuðu yfir sig og svo kom Bryndís með þennan líka hrikalega eftirrétt sem gjörsamlega sló mann í rot þannig að maður dormaði næstu klst. í alsælu.

Ég, Inga og Eiríkur fórum í dag og versluðum garðáhöld, hjólbörur og fleira, því við erum búin að ákveða að ráðast á garðinn núna.. við ætlum að taka öll tré sem eru austan megin við húsið og setja þar runna og grindverk. Ég hlakka rosalega til að fara svona í skógarhögg í garðinum, með exinni sem pabbi gaf mér í jólagjöf.. hehe
Við erum nefnilega með miljón tegundir af trjám, runnum og grasi á sama fermetranum svo að við ætlum að einfalda málið aðeins. Svo ætlar Inga að koma sér upp matjurtargarði og vorum við að rífa upp gamla trjástubba og plægja í dag. voða gaman hjá okkur.

Eiríkur er þvílíkt að segja mér sögur þessa dagana.. sennilega um allt sem fram fór á Íslandi sl. mánuð. .og honum liggur mikið niðrifyrir í sumum sögunum.. og maður sér á svipnum á honum að þetta var eitthvað rosalega merkilegt. hann er yndislegur stubburinn sá.

bless i bili
Beck's

þriðjudagur, 27. mars 2007

Úti að leika, bara gaman.


Ó já.. helgin bauð upp á fallegt veður, þannig að við vorum rosalega duglega að hjóla út um allar trissur. Þetta átti nú bara að vera auðvelt, láta krakkana hjóla og ég myndi jogga á eftir Agli til að passa að hann myndi nú ekki detta eða beygja út á götu. Eeeeeennnnn strákurinn getur nú bara hjólað askoti hratt. Við vorum sem sagt á leið í kaffi hjá fjölskyldunni á Casa Sana vej en ákváðum að koma við í Solrod, þó að það sé nokkra km úr leið. Svo sem ekkert nýtt hjá mér að fara langleiðina að hlutunum, sbr. ferð á Akureyi sem endaði í hringferð um landið. Ég veit ekki allveg hvað húsfrúin í Solrod hélt þegar við renndum í hlað, ég gat ekki komið upp orði, kósveittur og gersamlega búinn eftir sprettinn á eftir Agli. En eftir vatnssopa gat ég stunið upp að við værum í hjólatúr. Egill var rosaánægður, pabbi að elta og eftir því sem hann gaf í heyrðust skrítin hljóð í pabba, voða gaman. Eftir langa pásu var haldið af stað tilbaka og nú var stoppað á Casa Sana vej og þar sem okkur var boðið í kaffi og með því. Krakkarnir léku sér svo allan daginn og við fullorðna fólkið sátum bara úti í garði og "hugguðum" okkur í sólinni. Þegar við svo loksins komum heim þá nennti pabbi sko ekki að elda þannig að það var boðið upp á pulsur með öllu.


Við erum búin að fá að sjá Eirík núna næstum daglega í vefmyndavélinni okkar og sá er að stækka og þroskast.. mér finnst hann nú bara breytast dag frá degi. Ég skil vel að sjómenn hér áður fyrr gátu ekki þekkt börnin sín, þegar þau voru svona lítil, þegar þeir komu loksins í land.

Ætli ég sé þá í sporum sjómannskonu ? þetta er fer nú að vera hættulegt. maður er farinn að muna ótrúlegustu hluti, hvað á kaupa í matinn, taka úr þvottavélinni, gera matpakka og fl.


jæja ætli ég fari nú ekki bara að halda dagbók og .......


bless í bili


Beck´s

laugardagur, 24. mars 2007

Afhverju að þrífa, þetta verður allt skítugt aftur !!!



Já og ég held að ég sé heimsmeistari í að ýta hlutum sem snúa að hreingerningu og tiltekt á undan mér án þess að gera nokkuð þeim. Ég er sennilega bara orðin svo vanur því að Inga hirði eftir mig draslið þegar hún er búin að fá leið á sama draslinu aftur og aftur. Ég held reyndar að ég kæmist upp með það að bíða þar til hún kemur út aftur, en ef hún fengi pata af því hvernig ástandið væri, myndi hún sennilega hugsa sig nokkrum sinnum um áður en hún héldi af stað til DK aftur.

Við erum búin að vera rosalega dugleg í dag að taka til , því við viljum fá mömmu heim. Búið að skúra skrúbba og bóna.

Erna fékk vinkonu sína, hana Amalie, í heimsókn í morgun og var því glatt á hjalla. Fór ég með þær tvær að versla því Egill vildi endilega fara í heimsókn til nágranans og leika við Matthias.
Þegar við komum svo til baka þá voru bakaðar amerískar pönnukökur að hætti hússins, framreiddar með sírópi og í kvöldmatinn verða home-made hamborgarar með HUNTS BBQ sósu. nammi namm.

Það er búið að vera yndislegt veður í allan dag og hitinn á pallinum búin að vera í 15-16°C, en um leið og maður kemur fyrir hornið er svalara, gusturinn er svell kaldur en í skjóli er yndislegt að vera, svo vorum við að fá þær skemmtilegu frettir að ein besta vinkona Ernu á Íslandi, er að koma til DK yfir páskana og er verið að skipuleggja hitting hjá þeim eitthvern tíma um páskana.

P.s Til hamingju með ferminguna Ingibjörg !

bless i bili Beck's

þriðjudagur, 20. mars 2007

Hjólað og hjólað allan daginn út og inn.

Vor var í lofti þegar við vöknuðum í morgun. Sólin skein inn um gluggann og ég var viss um að við hefðum sofið yfir okkur. Merkilegt hvað börn eru fljót að finna veikublettina hjá manni. Allavega hafa þau fundið einn hjá mér. Ég þykist rosa duglegur að fá þau til að sofna í sínu rúmmi en þau vakna alltaf hjá mér á morgnanna ! skrýtið.

Við vorum í svo góðu skapi í morgun að við ákváðum að hjóla í leikskólann, og nú var Egill að hjóla í fyrsta sinn í leikskólann án hjálparadekkja, vá hvað við vorum miklu fljótari. Það er í raun ótrúlegt hvað mannsskepnan er fljót að læra að hjóla. Strákurinn er búin að fara í 3-4 hjólaferðir og nú þarf maður nánast ekkert að grípa inní, og þetta með að beygja er allt að koma. Þegar við komum heim af leikskólanum þræl þreytt eftir að hafa hjólað heim, ákváðum við að baka muffins ! Eitthvað sem var búið að fresta og fresta, en svo tók það ekki meir en 20 mín að "sulla" þessu saman þegar við byrjuðum loks á þessu enda fengu krakkarnir að sjá um baksturinn.Það tók mun lengri tíma að þrífa eldhúsið á eftir, en það telur ekki með.

Erna fór svo á fimleika æfingu og stendur nú meir á höndum enn hún stendur í fæturna, og það eru fótaför upp um alla veggi. Þau eiga svo bæði að vera með íþrótta-sýningu þann 1.apríl í íþróttahúsi bæjarins.

jæja segjum það gott í bili.. kv. Becks

mánudagur, 19. mars 2007

bókasöfn og ruslaferðir



Í dag var ákveðið að taka þetta með stóískri ró og slappa bara af.. Enginn á að fara á æfingu og einu plön kvöldsins er að borða fisk í kvöldmatinn og lesa fullt af bókum fyrir börnin. Við fórum nefnilega á bókasafnið í dag og það var valið vel til kvöldlestrarins. Meira hvað þau eru ánægð með bókasafnið hérna, þau velja sér DVD myndir PS2 leiki og bækur og allt án þess að borga. Og það besta er að maður fær sms og tölvupóst þegar maður þarf að fara að skila, tær snilld. Annars var frekar kalt í dag og ég sendi krakkana með kuldagallana með sér í leikskólann en það er nú "samt" 5 stiga hiti. Eitthvað á að kólna núna á næstu dögum en þegar nær dregur helgi á að hlýna aftur, þannig að ég í það minnsta held að það sé komið vor.. allavega gerðum við vorhreingerningu á útiskúrnum okkar um helgina.. þetta er ótrúlegt, maður rífst og skammast yfir þessu rusli öllu saman og þegar maður loksins hefst af stað til að fara í Sorpu tekur þetta 10 min að losa sig við þetta, fullan bíl af drasli, afhverju í veröldinni var maður ekki búin að fara með þetta fyrr...skelfilega ætlar maður að læra þetta seint.. en svona er það nú..

bless í bili




Grassarinn , Becks

sunnudagur, 18. mars 2007

Grasekkill


jæja það kom að því að maður fær að reyna fyrir sér í heimilisstörfunum. Inga Freyja skellti sér til Íslands til að klára námið sitt, svo að ég er eftir í Danmörku með Ernu og Egill.

Allt gengur þetta nú bærilega en voðalega er maður lélegur multi-tasking maður .. það er t.d voða erfitt að vera með allan matinn heitann á sama tíma, ef maður reynir að hafa þetta allt tilbúið á réttum tíma þá er eitthvað hrátt eða eitthvað brunnið. En maður lifir og lærir sagði einhver spekingurinn.

Í gær vorum við með slátur veislu og buðum nokkrum vinum okkar í heimsókn. Það var sko veisla og allir borðuðu á sig gat, en það skemmdi svolítið stemminguna að dúkurinn sem var á borðinu var "kannski" þveginn nýlega með örlítið of mikið af mýkingarefni og slátrið ylmaði af Ultra fresh vor-ilmi. Gestirnir héldu bara að ég hafði þrifið stofuna svona rosalega vel áður en þau komu. En slátrið var gott og viljinn var tekinn fyrir verkið.

Í vikunni tókum við svo hjálpardekkin af hjólinu hans Egils og nú hjólar hann eins og herforingi upp og niður götuna, eina sem hann á eftir að læra er þá að beygja og eru æfingar þegar hafnar á því.


Og svo í dag fórum við í Sorpu, sund og svo í keilu, sem var allger snilld. Ég stóð í þeirri trú að þau væru of lítil til að geta farið með þau í keilu en svo er nú aldeilis ekki.. Þau stóðu sig með stakri bríði og fannst rosalega gaman.

jæja segjum það gott í bili

kveðja
Becks

þriðjudagur, 23. janúar 2007

pípulagnir + gipsplötur + snjór + kuldi

jæja þar kom að því.. það er byrjað að snjóa.. Veðurfræðingurinn sem spáði snjókomunni mundi ekki hvernær það var norðan átt í danmörku síðast.. en það á að hlýna aftur á miðvikudag-fimtudag.

Annars var nú heldur betur spýtt í lófana um sl. helgin.. Pabbi og Jóhanna mættu á svæðið, sennilega leist pabba ekkert á hvað strákurinn var byrjaður á og ákvað að koma og sýna honum hvernig ætti að gera þetta.. Við settum nýja pípulögn fyrir baðherbergið, flotuðum gólfið og settum gipsplötur í loftið í holinu. Ég er svo byrjaður að sparsla og undirbúa festingar fyrir vegghengda klósettið.

Annars er ég mjög ánægður með hvernig húsið er búið að reynast í -6 til -8° C. Það var ekkert kalt á okkur og á kvöldin þá kveikti maður upp í kamínunni, svona til að nota eitthvað af þessum 2 tonnum af brenni sem ég keypti ( ég bjóst við hörðum vetri :-).

mánudagur, 15. janúar 2007

Litla baðherbergið er horfið !!!




og HANANÚ

.. nú var stóri hamarinn hans pabba tekinn fram og litla baðið varð fyrir barðinu.. í dag er ég búin að rífa allt .. já allt út af baðinu og þar með taldar flísar og múrklæðning, ja ég fór aðeins of geyst af stað og tók klæðninguna með. Svona eftir á að hyggja var það kannksi allveg óþarfi. Nema hvað við ætlum að setja nýtt klósett, vask, flísar = nýtt
bað.. úr því að ég var hvort eð er að taka holið var bara ágætt að ráðast á þetta líka.. nema hvað, þegar maður byrjar þá er maður ekkert nema ákafinn og þegar dagur að kvöldi kemur þá er maður gersamlega búinn..
Ég á erfitt með að ýta á Enter takkann því þá vekjar mig, segir kanski meira um mig en stærð verkefnisins :-)

En svona er nú það .. morgundagurinn fer nú svo í Stark, Silvan og Bauhaus og svoleiðis s.s. stráka-verslunardagur .. gaman gaman..
kveðja Beck's




laugardagur, 13. janúar 2007

Heima í Danmörku aftur !


jæja þá er tími ofáts og allgjörar leti liðinn. Við komum heim í húsið okkar þann 7. Janúar og var rosalega gott að koma heim.. allt var eins og það átti að vera og meir að segja voru vinir okkar í Sólröd búin að kaupa kost svo við ættum eitthvað í okkur. Húsið var nú frekar kalt þó að kyndingin væri búin að vera á í nokkra daga en eftir að hafa notað eitthvað af þessu tveimur tonnum af brenni sem ég keypti hlýnað heldur betur í húsinu.
Erna og Egill eru upp á sitt besta núna , að hitta alla vinina og rifja upp hvað hver fékk í jólagjöf.
Annars er maður bara að reyna að vera duglegur í að klára þessa smá hluti sem eftir voru þegar við fluttum inn, hengja upp ljós, myndir og setja saman hillur og þess háttar og svo á mánudaginn ætla ég að byrja á því að klára holið hjá okkur, að vísu bættist litla baðið við.
Við ætlum að setja nýtt klósett, svona vegghengt, og nýjar flísar. Inga er búin að vera svo snjöll að finna svona restar af flísum á tilboði, allt að 85% aflsáttur, snilld.
látum gott heita að sinni